Diktafónar og vefþulur

Salvör Gissurardóttir 2020

Hvernig hefur tækni varðandi miðlun á töluðu máli og orðræðu þróast undanfarnar tvær aldir? Við vitum vel hvaða áhrif það hafði á heimsmenningu og stjórnmál þegar prentækni bylti samfélögum frá tímum Gutenbergs. Hvaða áhrif munu þær tæknibreytingar sem nú eru að verða á miðlun hljóðs hafa á menningu okkar og samfélag?

Ein leið til að skilja framtíðina og spá í hvað er í vændum er að skoða fortíðina. Það er gott að skoða hvernig tækni við að miðla töluðu máli og orðræðu hefur þróast á Alþingi því það er staður þar sem saman kemur forustusveit samfélags og þar sem fyrir hendi er tækni og fé til að vera í forustu að hagnýta sér nýja máltækni. Hér á eftir er skoðað hvernig tæknin hefur breyst á Alþingi allt frá diktafóni til talþulu.

Árin 1947-1948 var gerð á Alþingi tilraun til að nota diktafón til að taka upp ræður þingmanna. Það mun hafa verið gert með að hengja hljóðnema í ljósakrónu og taka upp hljóð á stálþráð á tæki sem útvarpið átti. Á þessum árum var hugsunin að spara mætti kostnað við þingskrifara með að taka í notkun upptökutæki . Þessar prufuupptökur þóttu hins vegar ekki nógu góðar til að hægt væri að vélrita eftir þeim. Það var því ekki fyrr en fjórum árum seinna sem farið var að taka upp þingræður á segulband.

Ég rakst á skopmynd frá 1947 í gömlu eintaki af tímaritinu Speglinum en þar er gert grín að þessu tæknibrölti Alþingis og grínast með að nú hafi þingskrifarar ekki lengur neitt að gera og nú muni ekki líða á löngu þar til þingsveinar hafi ekki heldur neitt að gera, það muni vélmenni yfirtaka ferðir þeirra eftir brennivíni í Ríkið. Diktafónninn er í þessu skopi kallaður slúðurgleypir. Svo fylgir með teiknuð mynd af þeim vélmennum sem muni í framtíðinni fara í sendiferðir fyrir þingmennina.

Skopmynd úr Speglinum 1. júní 1947

Það hefur eflaust verið mikil fremdar- og ábyrgðarstaða að vera þingritari fyrir tíma allra upptökutækja. Það er reyndar gaman að rifja upp að margir sem urðu áhrifamenn í þjóðmálum voru áður þingskrifarar eða voru skrifarar að atvinnu. Sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson var ritari biskups og skáldið Benedikt Gröndal var ritari landfógeta og þingskrifari svo einhverjir af hinni miklu stétt skrifara og ritara séu nefndir.

Alþingistíðindi hafa komið út allt frá því að Alþingi var endurreist 1845. Í fyrstu voru þar ágrip eða frásagnir af þingfundum en brátt voru ræður þingmanna skráðar niður orði til orðs og prentaðar eins og þær voru fluttar. Fyrsti hraðritarinn var ráðinn til þingsins árið 1917.

Tæknin breyttist og segulbönd komu til sögunnar. Þann 1. október árið 1952 var farið að taka þingfundi upp með segulbandstækjum. Þingræður voru svo vélritaðar upp eftir böndunum. Það þurfti að breyta ýmsu á Alþingi þegar upptökur byrjuðu. Hér er frásögn af því (Með leyfi forseta, 2002):

„Hið nýja fyrirkomulag kom til framkvæmda þegar í byrjun þings haustið 1952 og tala
þingmenn síðan úr sérstökum ræðustól, en ekki úr sætum sínum eins og áður tíðkaðist. Upptökutækjunum var komið fyrir í herbergi því sem minjasafn Jóns Sigurðssonar var lengi geymt í. Voru höggnir gluggar úr því inn í báðar þingdeildir og getur sami maður eða sömu menn stjórnað upptöku úr báðum þingdeildum samtímis. Fjórir hljóðnemar eru á hvorum ræðustóli í deildunum og tveir á hvorum forsetastól. Sérstakt símasamband er milli upptökumanns og forseta í þinginu. Jafnframt upptökutækjunum hafa verið keypt sjö hlustunartæki eða afritunartæki, sem skila í eyrun ræðunum af segulbandinu. Ræðuskrifararnir þurfa að sitja þar þröngt því að herbergið er alltof lítið.“

Það þurfti enga þingskrifara sem hraðrituðu og handskifuðu upp ræður á meðan á flutningi þeirra stóð eftir að upptökutækin komu til sögunnar. Nú þurfti ritara sem vélrituðu upp eftir segulböndum á ritvélar. Vélritarar vélrituðu ræðurnar í fjórum eintökum og settu kalkipappír á milli. Frumritið var gult eða gulbrúnt og það var sett á lestrarsal fyrir þingmenn og það síðar leiðrétt og sent í prentun. Annað eintakið var hvítt og þykkt og var fyrir þingmenn sem vildu leiðrétta ræður sínar. Þriðja og fjórða eintakið voru hvít og þunn. Þriðja eintakið var öryggisafrit sem var geymt þangað til prentun var lokið. Fjórða eintakið var haft til taks fyrir blaðamenn, þingmenn og aðra sem báðu um það.

Þessi mynd frá bandarísku fyrirtæki sýnir fullan sal af vélriturum sem vélrita upptökur úr diktafón. Myndin er frá Wikimedia Commons og myndatextinn er „Room full of girls seated at typewriters transcribing dictaphone records“.

Árin 1984-1985 var byrjað að slá inn á tölvur og gengið frá textanum á skrifstofum Alþingis og hann sendur þaðan í prentsmiðju.

Tæknin breyttist og sífellt fleiri tæki urðu stafræn. Haustið 1996 var farið að nota stafræna hljóðupptöku í tölvu í stað segulbandstækja. Þá varð mögulegt að senda hljóðskrár gegnum netið og núna þurfi ekki að vélrita ræðurnar á Alþingi, það opnaðist möguleiki til að úthýsa þeirri vinnu. Árið 1997 voru tveir ritarar út í bæ ráðnir sem verktakar við ræðuritun. Þeir sóttu hljóðskrárnar gegnum netið og sendu til baka textaskrár. Textar með ræðum þingmanna urðu nú aðgengilegar á netinu einum eða tveimur sólarhringum eftir að þær voru fluttar en á tímum þingskrifaranna þá voru ræðurnar ekki aðgengilegar fyrr en þær birtust í Alþingistíðindum einhverjum misserum eða árum eftir að þær voru fluttar.

Síðla árs árið 2019 tók Alþingi í notkun íslenskan talgreini sem getur skrifað sjálfkrafa niður ræður þingmanna um leið og þær eru fluttar. Þessi talgreinir er ennþá í þróun.

Ítarefni um tækniþróun

Dictophone (grein á ensku Wikipedia)

Tape recorder (grein á ensku Wikipedia)

Short hand (grein á ensku Wikipedia

Helgi Bernódusson. Með Leyfi Forseta : Alþingistíðindi Og Umræður á Alþingi 2002.
Sótt af https://www.althingi.is/media/sogulegt/Med_leyfi_forseta.pdf

Bergmál (grein frá 1947um diktafónprófanir Alþingis) Vísir 08.11.1947